Bókaneysla og heimildarmynd

Posted by jonas on January 23rd, 2008 filed in

Mig hefur lengi langað að skrásetja áhugaverðar myndir og bækur sem ég er að rekast á. Þessi færsla verður vonandi sú fyrsta af einhverjum fleirum. Þar sem ég elska að lesa bækur og horfa á heimildarmyndir ætti að vera af nógu að taka.

Ég horfði á frábæra heimildarmynd í gær: No End In Sight. Virkilega góð úttekt á ömurlegri aðkomu Bush og félaga að Írak. Aldrei, aldrei nokkurntíma hefði ég trúað því að hægt væri að reka land og stríðsrekstur af slíkri óendanlegri vanhæfni, hvað þá öflugasta ríki jarðkúlunnar að ráðast inn í menningarlega púðurtunnu miðausturlanda.

Þessi mynd minnti mig líka á það hvað angrar mig alltaf við myndir Michael Moore. Hugmyndin að áróður og lygar séu eina ráðið gegn áróðri og lygum stenst engan veginn nánari skoðun. Sanleikurinn sigrar alltaf svo lengi sem einhver þorir að segja hann. Lygar núllast út á endanum.

Síðustu daga hef ég lesið Chronicles, sjálfsævisögu Bob Dylan. Það er vissulega frábært að fá að kynnast svona heiðarlegum og einlægum Dylan. Margt sem hann er að segja um lagasmíðar og textagerð er afar áhugavert þó maður hafi á tilfinningunni að hann hafi ekki viljað tala of skýrt, ekki gefa trixin sín of auðveldlega. Það er líka virkilega gaman að heyra hans hlið á hvað það geta verið hræðileg örlög að festast inn í heimi glansmyndar sem aðrir hafa búið til. Í gegnum bókina skín sterkt hvað allar viðurkenningar mannana eru inntamómar á endanum. Meira að segja þegar hann er sæmdur heiðursdoktorsnafnbót bíður twist sem opinberar glingrið.

Fleiri góðar bækur sem hvíla á náttborðinu mín og ég hef lesið síðustu vikur eru:

Surely You’re Joking, Mr. Feynman!
What Do You Care What Other People Think?

Richard Feynman var ótrúlega afkastamikill vísindamaður og hugsuður. Sögur hans af lífinu og uppákomum hans í samskiptum við annað fólk er gjarnan kostulegar og oft innblásandi lestur. Frásögn hans af því hvenrig var að taka þátt í rannsóknarnefnd Challanger slysins og hvernig stjórn Nasa hafði búið til kostulegar skilgreiningar á tölfræðilegu öryggi ferjunnar er líka ógleymanleg.

Impro: Improvisation and the Theatre

Impro ku vera biblía leiklistarbransans og ég er ekki frá því að þetta sé ein af þessum bókum sem eigi eftir að hafa mjög mikil áhrif á viðhorf mín til sköpunar yfirleitt. Kaflinn um stöðugildi fólks (status) er dýrmæt lexia fyrir öll samskipti. Pælingar um grímur í leiklist og shamanisma ekki síðri. Virkilega dýrmæt bók.

Í desember uppgvötvaði ég líka verk Indverska heimspekingsins Sri Aurobindo. Ég held að ég hafi lesi hverja blaðsíðu bókarinnar 2-3 sinnum til að vera viss um að drekka í mig alla spekina sem er háþróuð og heillandi í senn. Aurobindo var sjaldgæf blanda vestræns intellektualista (menntaður og uppalin í Bretlandi) og austræns spekings. T.d. er ég mjög sammála Aurobindo þegar hann rekur hvernig sálgreining að hætti Freud getur aldrei komist til botns í sál mannanna heldur eingöngu kortlagt gárurnar á yfirborði hugans. Aurobindo meinar líka að hugsanir okkar séu ekki komnar frá heilanum heldur berist okkur utan að og heilinn sé eingöngu filter og flokkunartæki. Leið okkar til að sannleikanum felst því í að hugsa ekkert. Kyrr hugur er vegvísir okkar að sannleikanum og því er hugleiðsla farartækið. Eftir að hafa lesið Aurobindo hef ég ítrekað reynt að hætta að hugsa en ekki ennþá náð tökum á því.

Í desember hlustaði ég líka á Eckhart Tolle bókina A New Earth. Tolle höfðar mjög sterkt til mín. Sú heimsmynd sem hann byggir upp og hvernig hann skilgreinir hugann sem víglinu þar sem egóið og sálin takast á höfðar sterkt til minnar eigin reynslu og uplifunnar. Ég mæli með þessari bók sem hljóðbók í alla iPoda.

Svo las ég söguna af Pí og varð fyrir vonbrigðum. Ekkert um töluna Pí eins og ég hafði vonað heldur bara einhver örlagasaga með twisti í endann. Þá mæli ég margfalt frekar með Contact (e. Carl Sagan)
.


3 Responses to “Bókaneysla og heimildarmynd”

 1. ingvar Says:

  Virkilega fróðlegt allt saman. kv ingvar

 2. Elías Þór Says:

  Sæll
  Gaman að fá svona umjöllun. Ég varð líka fyrir hálfgerðum vonbrigðum með Pí, held þó að ég hafi notið hennar betur vegna þess að ég hlustaði á hana í hljóðbók sem var lesin með indverskum hreim.

  Ég mæli með Flugdrekahlauparanum (The Kite Runner). Ég hlustaði líka á hana og fannst hún frábær.

  Annars er skyldulesningin “Furðulegt háttarlag hunds um nótt” (e. The Curious Incident of the Dog in the Night-time). Ég er kannski ekki alveg hlutlaus þar sem ég á einhverfan son, en mér skilst að flestir sem hafa lesið hana hafi verið hrifnir.

  Kv.
  Elli

 3. zordis Says:

  Kósýkvedjur til ykkar!

  Sumar og saelt líf tekur vid ….

Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.

n a s a w e b | WP Powered using Earthling by Headsetoptions + MandarinMusing in partnership with Romow and Linkwith.us