Af sjón og vísindakirkju

Posted by jonas on February 26th, 2005 filed in

Undanfarið hef ég verið að hallast að nýrri kenningu. Að sjóntap sé eingöngu tilkomið sökum þess þegar maður dvelur langdvölum í hausnum á sjálfum sér í stað þess að gæta að umhverfinu. Þegar ég hjóla eða skokka heim úr vinnunni gegnum skóginn minni ég sjálfan mig á að beina athyglinni að umhverfinu, trjánum, gróðrinum eða himninum í stað þess að sökkva mér í svalandi draumaheima og pælingar. Það getur reynst hægara sagt en gert og þá tek ég oft einmit eftir því hversu illa ég sé orðið smáatriði í umhverfinu.

Þannig komst ég að þeirri niðurstöðu að þar sem ég hef dvalið þvílíkum langvistum í hausnum á sjálfum mér hefur undirmeðvitundin minnkað verulega reikniafl sjónstöðvanna þar sem upplýsingarnar frá þeim fá nánast aldrei athygli meðvitundarinnar.

Ég veit ekki hvort þessi kenning stenst vísindalegar úrtölur og sýnist nú reyndar í fljótu bragði að svo sé alls ekki. Ég mun þó hinsvegar beita fyrir mig þrætikeflisbragði L. Ron Hubbard og svara í engu gagnrýnum spurningum heldur saka spyrjendur um móðursýki, alheimssamsæri og lögsækja bara ef þannig liggur á mér.

Síðasta vetur tók ég mig einmitt til og heimsótti Vísindakirkjuna hér í bæ reglulega til að kynna mér innviði þessa fyrirbæris. Niðurstöður þeirrar rannsóknar væru alveg efni í langa grein hér á síðuna. Þó má í stuttu máli draga þær saman þannig að eftir nokkrar heimsóknir og viðtöl fékk ég þann úrskurð að ég væri snillingur og þess vegna gengi mér stundum erfiðlega að eiga samskipti þarna úti á meðal lýðsins.

Það voru vitanlega óvænt en ánægjuleg tíðindi eins og hægt er að geta sér til um. Þá var ég fræddur um það að í söfnuði þessum væru hisnvegar eingöngu samskonar snillingar og það eina sem ég þyrfti til að komast í hópinn væri að gangast undir hreinsunarmeðferð þeirra. Hreinsunareldur þessi samanstóð af vítamínum, steinefnum, langsetum í gufubaði, viðtölum og frekari greindarvísitöluprófum til að staðfesta ótrúlegar gáfur mínar.

Þetta var náttúrulega afar spennandi og ekki spillti að meðferð þessi var allt á sérstöku tilboði og hefði ekki kostað mig nema 300-400 þúsund eða svo (ÍSK). Mér var þó bent á það að þetta væri ekki mikið pr. mínútu sem líklega er alveg rétt. Sérstaklega í ljósi þess að umræddur hreinsunareldur ku vera svo kyngimagnaður að hann hreinsar allt frá geislavirkni til leiðinlegra minninga úr kroppnum og hefur víst gefið góða raun á einhverjum spítala í Úkraínu.

Það undrar mig þó ekki að þessi hugmyndafræði (Vísindakirkjan) eigi upp á pall í Hollywood og víðar hvar Tom Cruise og John Travolta hafa meðtekið fagnaðarerindið. Egóið er sterkt afl sem auðvelt er að vanmeta. Ég verð allavega að viðurkenna að þeir náðu mér smá stund með þessu snillings-tali þangað til ég kom heim og fór að lesa um það á netinu hvernig þetta trúfélag höfðaði einmitt beint til hégómagirndar fólks og nær því þannig.

Alltaf lærdómsríkt að láta opinbera eigin hégómagirnd.

Þessar rannsóknir hafa þó dregið þann dilk á eftir sér að varla er friður á heimilinu fyrir hringingum safnaðarins sem ætlar greinilega ekki að láta villuráfandi sauði sleppa úr réttum sínum. (þ.e. þá sem enn eru ofurselda hinum ‘reactive’ heila sem er uppspretta alls ills í heiminum)

Ég mun hinsvegar beina sjónum mínum til himins að skýjunum og tjátoppunum næstu mánuði.

Vantar einhverjum notuð gleraugu?

Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.

n a s a w e b | WP Powered using Earthling by Headsetoptions + MandarinMusing in partnership with Romow and Linkwith.us