Brúðkaup Jóhanns og Erlu Sóleyjar

Posted by jonas on August 22nd, 2004 filed in ,

Flutt við brúðkaup Jóhanns Grétarssonar og Erlu Sóleyjar 22.ágúst 2004

Jóhann Grétarsson og Erla Sóley á brúðkaupsdaginn 21.ágúst 2004

Mig langar að segja nokkur orð við þetta hátíðlega tilefni. Það vill nefnilega þannig til að við Jóhann erum bernskuvinir. Það má eiginlega meira að segja kalla það frumbernskuvinir því við erum jafnaldrar og ólumst upp saman í Þorlákshöfn. Jóhann var fyrsti vinurinn sem ég eignaðist í leikskólanum og höfum við því brallað heilmikið og fjölbreytt saman gegnum tíðina. Mig langar því að gefa ykkur sem ekki þekkið sögu brúðgumans littla nasasjón af bakgkrunni hans og ekki síður persónu Jóhanns og kostum þeim sem hafa einkennt hann alla tíð.

Ég veit að það hljómar ótrúlega fyrir þau ykkar sem þekkið Þorlákshöfn ekki af öðru en að vera eitt fallegasta bæjarstæði Íslands. Já, merkilegt nokk því þegar við Jóhann vorum að alast upp í Þorlákshöfn var þetta ekki sú blómstrandi vagga Íslenskrar menningar sem við þekkjum í dag. Þvert á móti var þetta samfélag sem var algjörlega byggt á sandi. Þarna í miðri sandauðninni hafði einhverjum hugkvæmst að væri gott að hafa höfn og gera út báta og gáfu þeir sömu lítið út á fegurðarsjónarmið eða hvort hægt væri að hengja upp þvott án þess að að allir vasar og glufur flíkanna fylltust af sandi. Það var nefnilega svo á þeim tíma að þeir faktorar sem réðu staðsetningu bæjarstæða voru fyrst og fremst hvort á staðnum væru sæmilegir hafnarmögeikar og möguleiki á því að verka saltfisk einhvernvegin. Þorlákshöfn stóðst þessar kröfur með miklum sóma.

“Á sandi byggði heimskur maður hús” sungu börnin í leikskólanum í Þorlákshöfn merkilegt nokk en jaxlarnir sem byggðu upp þorpið á sjötta og sjöunda áratugnum annað hvort heyrðu aldrei þessa alþýðuvisku flutta eða blésu einfaldlega á slíkar úrtöluraddir. Nei, fullir bjartsýni vöknuðu þeir á morgnanna við notalegan niðin í sandinum blásandi málningunni af húsum þeirra og keyrðu síðan með börnin í leikskólann á sandblásnum bílum sínum glaðir og reifir í bragði yfir því að vera frumbyggjar, byggjandi upp þorpið sitt. Þorpið þeirra sem var að rísa upp úr engu og yrði blómleg byggð þegar fram liðu stundir.

Þarna kynntumst við Jóhann. Á leikskólanum í Þorlákshöfn. Þar sem börnin léku sér í sandi og borðuðu sand í einum risastórumm sandkassa. Þarna var um að ræða viðlagasjóðshús sem komið hafði með skipi ásamt 36 öðrum viðlíka einingahúsum og hent hafði verið upp á nokkrum dögum í gosinu ’73. Þá hafði verið hent inn á lóðina nokkrum gömlum rafspennuvírakeflum, 2 rólum, fullt af skóflum því nógur var sandurinn og opnaður leikskóli. Þarna urðum við Jóhann vinir og það fór fljótlega ekki á milli mála að við vorum stórhuga ungir menn. Eitt fyrsta verk okkar saman var að skipuleggja “Flóttann mikla” úr leikskólanum því við höfðum öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa heldur en að moka sandi úr einni fötu í aðra allan liðlangan daginn. Við höfðum nefnilega fengið þá mögnuðu hugmynd að halda ball í Félagsheimilinu. Það þótti okkur mikið þarfaþing að haldið yrði alminnilegt ball fyrir börnin í bænum og sáum við ekkert til fyrirstöðu að hrinda því í framkvæmd ef bara við kæmumst út fyrir girðingu leikskólans. Félagsheimilið var nefnilega merkilegt fyrirbæri í augum okkar krakkana á þessum tíma. Stór steypuklumpur í miðjum bænum þar sem óklippt steypujárnin stóðu marga metra út úr öllum endum svo helst minnti á kastala hauskúpumannsins í He-Man þáttunum. Byggingin hafði verið skilin eftir þannig með pólitískum vilja svona rétt til að leggja áherslu á það að hér væri einungis um að ræða kjallara mikils menningarmannvirkis sem síðar ætti að rísa. Nokkuð sem var í fullkomnum samhljómi við stórhuginn sem einkenndi bæinn á þessum tíma.

En mér finnst þetta magnað þegar ég hugsa til baka í dag, að við höfum virkilega verið að skipuleggja þetta á þessum tíma og ég man sérstaklega vel eftir flóttatilrauninni sem misheppnaðist algjörlega. Það var nefnilega þannig að þegar merkið hafði verið gefið og flóttinn átti að hefjast snerist mér vitanlega fljótlega hugur strax þegar ég fór að sjá glitta í frelsið hinumegin við grindverkið en Jóhann lét engan bilbug á sér finna, sneri sér yfir grindverkið og hljóp á móti frelsinu. Flótti hans var þó fljótlega stöðvaur þegar ein fóstran sá hvað var á seyði og kallaði á eftir Jóhanni: “Jóhann minn”. Vitanlega sneri Jóhann við á punktinum af sinni alkunnu prúðmennsku og flóttanum var þar með aflýst. Sem var líklega eins gott fyrir alla hlutaðeigandi aðila.

Við bekkjarfélagarnir létum síðan sem unglingar gamla drauminn rætast og stóðum fyrir miklu dansleikjahaldi í félagsheimilinu. Dansleikirnir voru haldnir í nafni félagskaps okkar Bindindisfélag Þorlákshafnar. Það var líklega nafninu að þakka að félagskapurinn naut mikillar góðvildar lögreglu og sýslumans Árnessýslu en sem betur fer litu þeir aldrei við til að taka út bindindisdansleikina sem félagið stóð fyrir því þá hefði líklega komið annað hljóð í strokkinn. Dansleikirnir heppnuðust firnavel og fyrir ágóðann buðum við öllum sem vildu upp á ókeypis rútuferðir í Þjórsárdal sumarið eftir í boði Bindindisfélagsins. Og hver haldið þið að hafi verið prófkúruhafi reiknings félagsins í Landsbanka Þorlákshafnar, jú vitanlega engin annar en Jóhann Grétarsson sem að vanda sinnti félagsstarfi sínu af miklum metnaði og krafti.

Seinna sátum við á kaffihúsum skrifuðum uppp nýja heimsmynd af miklum krafti undir yfirskriftinni Logobase. Það er kannski dæmigert fyrir bjartsýnina sem við höfðum drukkið í okkur með móðurmjólkinni þarna í Þorlákshöfn. Þetta var byltingarkennd heimsmynd þar sem við höfðum komist að því að jörðin væri ekki hnöttur í alheiminum heldur flatur massi sem haldið væri uppi af kú sem Auðumla hét. Um þetta leyti vorum við Jóhann í Fjölbrautarskóla Suðurlands og orðnir heimspekingar miklir. Jóhann átti meira að segja svona úlpu, heimspekiúlpu með loðfóðruðum kraga sem hann klæddist öllum stundum sem gerði hann ennþá vitsmunalegri og mátti hann þó varla við meiru því hann hafði farið að klæðast bókmenntafræðilegum hornspangar-gleraugum reglulega um svipað leyti. Ég man um að Jóhann kíkti eitt sinn til mín í kaffi á þessum árum og sátum við að spjalli heilt kvöld um landsins gagn og nauðsynjar þar sem Jóhann tók niður punkta og var óvenju íbygginn á svip. Vissi ég svo ekki fyrr en skömmu síðar þegar birtist í Sunnlenska fréttablaðinu opnuviðtal við mig þar sem ég fór mikinn, fyrirsögnin var “Danstónlist er ekki tónlist frekar en klósettpappír bókmenntir”, undirfyrirsögnina man ég ekki alveg en hún var eitthvað á þessa leið “ segir Jónas Sigurðsson trommuleikarinn eldhressi sem hatar blokkflautuleikara og gengur um í appelsínugulum sokkum”. Þarna var á ferðinni nýr efnilegur blaðamaður Jóhann Grétarson að taka viðtal við þennan líflega karakter sem var svo vel máli farinn að vart mátti muna að ég talað ekki bara í bundnu máli með dróttkvæðahætti þarna á síðum Sunnlenska. Nokkuð sem ætti að koma fáum á óvart sem þekkja Jóhann og áhuga hans á greinargóðri, kjarnyrtri Íslenskri tungu.

Þetta kom mér í hug löngu síðar þegar ég heyrði af Jóhanni þar sem hann tók upp á því í miðri vísindaferð í Háskólanum í Reykjavík að hringja til eins af virðulegri kennurum háskólans og skora hann á hólm í línudansi. Í línudansi hvað annað. Fyrst þegar ég heyrði af þessu fannst mér undarlegur þessi skyndilegi áhugi Jóhanns á dansi en núna þegar ég lít til baka sé ég þetta í öðru ljósi og ég skil núna hvaða þessi þörf hefur sprottið hjá Jóhanni að sanna hæfileika sína á danssviðinu svo um munaði. Áskorunin fór þó aldrei fram enda var henni víst ekki tekið fagnandi af téðum Lektor háskólans.

Mér er það mikil gleði að standa hérna á þessum dýrðardegi. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi ef svo má að orði komast að ég og konan mín vorum ekki búsett undir sama þaki um það leyti sem Jóhann og Erla voru að draga sig saman. Þá var ég að undirbúa brottflutning til Danmerkur og hafði sent fjölskylduna á undan mér og fengið tímabundið aðsetur hjá Jóhanni. Þar hitti ég fljótlega Erlu og komst að því mér til mikillar ánægju að þar væri rómantík í uppsiglingu. Mér hafði nefnilega strax litist svo ofboðslega vel á hana Erlu því hún var alltaf svo glöð og kát, með fallegt bros, smitandi hlátur og lék við hvern sinn fingur. Það hefur líka sýnt að hún hefur reynst Jóhanni mikill happafengur. Ég efast líka ekki um að vinur minn og prúðmennið eigi eftir að standa sína plikt í alla staði. Megi gæfan fylgja ykkur um alla tíð kæru vinir.


Leikskólinn í Þorlákshöfn 1973

Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.

n a s a w e b | WP Powered using Earthling by Headsetoptions + MandarinMusing in partnership with Romow and Linkwith.us