Helgi Bonham

Posted by jonas on July 26th, 2004 filed in ,

”Maður fyrir borð!!”

Þegar það sem þú hefur alltaf hræðst verður raunverulegt fer hjartað á stjá. Við horfum hver á annan, hvað hefur gerst? Hver er farinn út fyrir? Loðnunótin var að fara út. Myrkrið er yfirþyrmandi. Eitthvað hefur farið úrskeiðis.

Skömmu síðar þegar þegar ég kem upp finn ég alla nema Helga Bonham. Við þurfum ekki að segja neitt, Kallinn er að snúa dallinum og Massi hamast við að undirbúa spilið. Kiddi Djöfull er kominn upp með kastarann og lýsir í tómið. Gapandi kalt tómið. Vélin malar í lausagangi samhljóma nöprum vindinum.

”Áttu sígó?”
”Já.”
”Eld?”
”..hérna”

Þögn.

Hafið skilaði Helga Bonham klukkutíma síðar. Kiddi Djöfull hrópaði skyndilega upp yfir sig: ”Þarna er hann” en það var óþarft því við höfðum þegar komið auga á appelsínugula stakkin þar sem hann kom upp úr hafinu. Lífvana umbúðir Helga Bonhams.

Þegar Helgi var komin um borð vissum við ekki alveg hvað við ættum að gera. Það var eins og enginn vildi vanhelga minningu Helga Bónhams með því að rífa í stakkinn. Eins og við þyrðum ekki að vekja hann. Það hafði enginn riðið feitum hesti frá því að vekja Helga Bónham þar sem hann var sá áhafnarmeðlimur sem alltaf hafði verið skrefi á undan okkur hinum. Þegar Helgi var á vaktinni voru menn aldrei ræstir með neinu öðru en kvæsandi Zeppelin öskri í kallkerfið: ”Been a long time since a rock and roll!!!!”. Ef einhver nýr var um borð gerði Helgi sér ávalt ferð niður í káetuna og gaulaði yfir þá Immigrant Song: ”Ahahahaaaaaa!!”. Það var lífsreynsla sem fáir gátu gleymt. Að vakna sjóveikir og máttvana um borð í loðnudalli út á ballarhafi með brjálaðan skeggapa á gamalsaldri syngjandi Zeppelín.

Fáir skildu áhuga Helga á Led Zeppelin. Sagan sagði að Helgi hefði einhverntíma verið á fyllerí í Rotterdam og að hann hafði kennt sjálfum sér ensku samhliða því að braska með smyglvarning á vellinum. Þegar sem ungur maður skildi hann því vel engilsaxsneska söngtexta, nokkuð sem setti hann á stall ofar flestum félögum hans í áhöfninni á Vesturfaranum. Vesturfarinn var nefnilega víðfrægur af eindæmum. Dallur sem flestir kenndur við þrælagaleiður Rómverja til forna sökum einstakra mannkosta og karlmennsku áhafnarmeðlima. Helgi er staddur í þessari búllu í Rotterdam með kvonfang á hvorri hönd og búinn að skvetta í sig ærlegu magni af áfengum veitingum þegar Immigrant song glymur allt í einu í hátalarakerfi staðarins. Þar sem Helgi átti nú oftast fyrsta og síðasta orðið þegar kom að hressilegum samræðum, auk þess að skjóta ávallt vel völdum setningum að þess á milli, hafði hann orð á því hvaða geldingahópur hefði nú verið þarna að verki. Þessi söngur minnti helst á breim högnanna við fjósvegginn að Skuld. Þá kom línan sem negldi Helga Jósepsson og breytti lífi hans varanlega. Helgi Jósepsson, sveitastrákurinn af suðurnesjunum hafði ekki verið mikið fyrir exótíska nýbylgjutónlist til þessa. Það var áður en hann sperrti eyrun í Rotterdam og heyrði svo ekki var um villst að söngvarinn engilsaxsneski mælti á eigin móðurmáli ”…come from the land of the ice and snow, from the midnight sun where the hot spring flow”. Teningunum var kastað. Héðan í frá yrði Helgi aldrei kallaður annað en Helgi Bonham. Héðan í frá yrði ekkert spilað nema Zeppelin jafnt á útstíminu sem innstíminu, hvort sem menn voru upp á dekki eða niður í lest, Helgi Bonham þreyttist aldrei á Zeppelin.

”Did you hear that girls?” Dömurnar hváðu áhugalausar en glampinn í augum Helga Bonham var ósvikinn. ”…came from the land of the ice and snow…. that’s me!”.

“Oh yeah, how about then giving me some me some loving… iceman”. Stúlkan talaði út í loftið. Helgi heyrði ekki spurninguna. Hann var stokkin yfir til félaganna og skildi eftir sig hóp kvenna sem sáu fram á samdrátt á fjárhagsáætlun komandi nætur. Verulegan samdrátt.

“Hvaða hrynfjandi er þetta maður?” Spurði Helgi félagana. ”Þetta er massívur andskoti. …came from the land of the ice and snow maður, er þetta ekki um Ísland?”.

“Vissirðu það ekki manndjöfull, hefurðu aldrei hlustað á Zeppelin” svaraði Mr. Blues. Sigvaldi Blues var nokkuð yngri en Helgi. Hann hafði einu sinni þekkt rótarann hjá ballhljómsveitinni Töfrasnældunni hvar trommarinn hafði lánað John Bonham sjálfum trommusettið sitt þegar þeir höfðu spilað í Laugardalshöllinni sælla minninga. Því vildi nefnilega svo einkennilega til að það var ekki nóg með það að Sigvaldi Blues þekkti til Zeppelin, vissi að Immigrant song væri samið um Ísland heldur þekkti hann nóg til áhafnarinnar á Zeppelín til að vita að einhver um borð hét Bonham, John Bonham. Tenginunum var kastað að nýju. Helgi Jósepsson sem gengið hafði inn á krá í Rotterdam í sakleysi sínu gekk út endurskírður Helgi Bonham. Mr. Bonham kom við í nærliggjandi plötusjoppu á leiðinni út í skip og keypti allar plötur sem loftskipið hafði gefið út 1,2 og 3. Héðan í frá réðu Íslandsvinirnir og munkasöngvararnir skrækrómu lögum og lofum um borð. Það var tómt mál að tala um eitthvað annað.

Það var erfitt að trúa því að hinn sami Helgi Bonham og hafði vakið áhöfnina í morgun með enn einu öskrinu: “Been a long time, been a long, lonely, lonely, lonely time….” Lægi nú fyrri framan okkur hina í appelsínugula stakknum sem enginn þorði að snerta. Erfitt að trúa því að platan hans Helga væri komin á enda. Það yrði ekki oftar hlustað á Zeppelin á Vesturfaranum og ferðast aftur í tímann. Plöturnar voru bornar út af lögreglunni ásamt eigandanum þegar við komum í land.

Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.

n a s a w e b | WP Powered using Earthling by Headsetoptions + MandarinMusing in partnership with Romow and Linkwith.us