Blindsker

Posted by jonas on September 8th, 2006 filed in

Skömmu áður en vindurinn sofnar upp á hæðunum.
Eins og morgundögginn sprettur svitinn fram.
Andartaki áður en nýr dagur kemur með póstinum.
Ákveður sólin að hylja sinn harm.

Blindsker er magnað lag. Saxafónsóló minnir svolítið á Bowie frá sama tíma. Textinn og hljómarnir hreinn Bubbi. Útsetningin sterk taktföst. Frábærar myndlíkingar og tilfinningaþrungin niðurstaða:

Öll þessi ár sem gáfu okkur það sem aðrir óskuðu sér.
Elskendur í stormi sem aldrei sáu að ástin var aðeins
Blindsker.
Blindsker.

Blindsker minnir mig alltaf á tvennt, Alþýðuskólann á Eiðum og Fáskrúðsfirðinga.


1989 þegar ég var villuráfandi ungur sauður fékk ég þá flugu í höfuðið að fara frá heimabænum Þorlákshöfn alla leið austur á Eiðar í heimavistarskóla til að klára 9. bekk. (10. skv. núverandi kerfi). Hjá foreldrum mínum var það nokkuð auðsótt mál enda voru þau að verða gráhærð á drengnum og sáu fyrir sér að kannski tækist dugmiklum og heiðvirðum austfirðingum að koma mér til manns frá þeirri villu og svima sem augljóslega stefndi í ef ég héldi áfram á sömu braut. Þannig gerðist það að pabbi minn tók sig til og skutlaði mér littla 8 klukkustunda leið austur á land, inn í Egilsstaði og þaðan inn í Eiða.

Þarna vorum við saman komnir kringum 100 krakkar til að dvelja saman yfir veturinn. Heimavistin samanstóð af 3 húsum: Miklagarði þar dvöldu krakkar á öðru ári í framhaldsnámi (aðallinn) sem var æðsti árgangur í boði Alþýðuskólans. Á miðgarði bjó síðan millistéttinn: strákar og stelpur á fyrsta ári framhaldsnáms ásamt stelpunum úr 9. bekk. Síðasta húsið Útgarður bar nafn með rentu. Þar var sollurinn: 9. bekkjar strákarnir saman komnir undir einu þaki í elsta og hrörlegasta húsi skólans.

Útgarður var frægur af eindæmum sem dvalarstaður ungra kynsveltra unglingsdrengja. Þar voru stundaðar ýmsar merkilegar afþreyingar sem fæstar eru prenthæfar. Þaðan á ég margar af skemmtilegri minningum ævi minnar og eignaðist vini sem ég mun aldrei gleyma.

Á þessum tíma hafði ég lært á trommur lengi vel og komst fljótt á fullt inn í tónlistarlíf skólans. Ég gutlaði líka á gítar og hélt að ég væri partýhæfur gítarleikar þangað til að ég fór að spila með vistarfélugum mínum á Útgarði helstu partýlögin.

“Spilaðu Blindsker!” sagði 15 ára vinur minn frá Fáskrúðsfirði. Magnaður náungi sem hafði tattóveraðan upphandlegg, hafði verið í siglingum og upplifað svo mikil ævintýri miðað við aldur að mér fannst hann gæti alveg eins verið faðir minn.

“Blindsker?” hváði ég

“Kanntu ekki Blindsker?” sagði vinurinn og þögn sló yfir hópinn. Það var ekki nóg með það að ég hafði ekkert þekkt til Uriah Heep sem voru víst í skurðgoðatölu íbúanna við Skrúð heldur þekkti ég ekki Blindsker! Það var greinilegt að Blindsker var ekki aðeins þjóðsöngur Fáskrúðsfirðinga heldur átti sálmurinn líka sterk ítök í hinum vinum mínum, Breiðdælingum, Stöðvarfirðingum, Héraðsbúum, Borgfirðingum og Fljótsdælingum. Ég var greinilega á hálum ís þarna með mitt sunnlenska partýprógam.

Gítarinn var snögglega tekin úr höndum mínum og annar kynsveltur íbúi útgarðsins hóf að strömma upphafsriffið. D hljómur í vinnukonugripi og síðan “Skömmu áður en vindurinn sofnar upp á hæðunum”

Í upphafi fannst mér ekki mikið til sálmsins koma en síðar lærðist mér að meta hann mikils sem og þá taug sem hann snerti í svona mörgum vinum mínum og gerir enn. Ekki leið á löngu þar til ég gat orðið strömmað riffið og kyrjað textann. Það var ekki fyrr en síðar að ég fór að skilja innihaldið og fatta að þarna væri dýrt kveðið um lífið, baráttuna og vonleysi ástarinnar.

Síðan ég lærði Blindsker hef ég spilað það svo ótal mörgum sinnum. Fyrir svo ótal marga drukkna og ódrukkna á ótal mörgum samkomum og böllum. Þegar ég síðar fór að spila á böllum fyrir alvöru var Blindsker alltaf laumað inn í prógram þegar komið var austur fyrir land og aldrei brást stemmingin. Aldrei brást það heldur að ef Skafti nokkur Atlason Fáskrúðsfirðingur, stýrimaður og snillingur var í salnum þá gat maður treyst því að fá hann upp á svið um leið og fyrstu tónarnir byrjuðu að óma og njóta stuðnings hann við að flytja lagið. Skafti var sannur austfirðingur. Hann hafði verið á Eiðum árið á undan mér og goðsögn hans hafði ekki farið fram hjá neinum sem á eftir komu. Skemmtilegur náungi, sterklegur, kraftmikill og ávalt hress. Í mínum huga var alltaf samasemmerki milli Skafta og þessa lags Bubba, Blindsker. Þess vegna kom það mér algjörlega í opna skjöldu þegar ég var langt kominn með þessa færslu hérna um Blindsker og austfirðinga að ég slæ “Fáskrúðsfjörður” inn í Google til að vera viss um stafsetninguna og fæ upp minningagrein um Skafta Atlason frá Fáskrúðsfirði sem lést af slysförum 14.ágúst síðastliðinn.

Merkilegt. Alveg hreint ótrúlegt bara.

Þegar árin hafa liðið og tíminn höggvið allt það sem þótti kúl og tískan hefur gengið 360 gráður þá stendur einhvernvegin eftir það sem er hinn raunverulegi kjarni hlutanna. Þegar kemur að tónlist er í mínum huga fátt sem sannar það betur en lög eins og Blindsker. Það að búa til lag sem snertir líf svo margra á svo ótrúlega fjölbreytilegan máta. Lag sem hægt er að segja sögur útfrá og fólk fær gæsahúð við að heyra. Lag sem minningar um fólk lifa í gegnum. Ég mun allavega aldrei heyra Blindsker án þess að hugsa til Skafta. Það sama gildir líklega um alla þá sem þekktu til hans.


5 Responses to “Blindsker”

 1. Sigrún Says:

  Sæll minn kæri.

  Ég held að mörg af lögum Bubba höfði einmitt til fólks á litlu stöðunum úti á landi, á annan hátt en til malbiksbúanna. Það er amk mín reynsla. Það er “genkendelse” eins og danskurinn myndi orða það.

  Ástarkveðja til þín og þinna,
  S.

 2. Daníel Says:

  Blindsker minnir mig alltaf á tvö lög: lagið minnir á Heroes með David Bowie, og textinn minnir á Funny how love is með Fine young cannibals: “I go to places we used to go, I still se people we used to know”. Það má eiginlega segja að þessi tvö lög sameinist í Blindskeri.

  Gaman að sjá að bloggsíðan er lifnuð við 🙂

 3. jonas Says:

  Já takk Daníel & Sigrún. Ég hef reyndar verið að hlusta á Lennon undanfarið og tek eftir þessum sömu element frá þessum tíma. Ætli Bowie hafi verið undir áhrifum eða öfugt?

 4. guffi Says:

  sæll jónas rakst á síðuna þín fallega skrifað um okkar vin skafta,,þegar ég spila blinsker á böllum nú til dags þá hugsa ég alltaf um fallinn félaga,,hlakka til að heyra nýja albúmið þitt kveðja Guffi

 5. o.veigar Says:

  Blindsker minnir mig alltaf á HGBH… og þá var nú mikið hringt!

Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.

n a s a w e b | WP Powered using Earthling by Headsetoptions + MandarinMusing in partnership with Romow and Linkwith.us