Framtíðarsýnir Sjáenda

Posted by jonas on October 14th, 2006 filed in

Nasadamus 2006

Ég man alltaf þegar ég las bókina “Framtíðarsýnir Sjáenda” sem var samandráttur spádóma Nostradamusar. Þá var ég 13 ára að verða 14 og hafði lesturinn óhugnalega mikil áhrif á mig. Það var ekki um að villast, mannkynið var dauðadæmt. Bókin spáði kjarnorkuárásum milli stórveldanna 1993-1994 og síðan allsherjar dómsdegi í kjarnorkudauða 1999. Fyrri spádómar sem “ræst” höfðu voru þarna allir týndir til þannig að málið var óvéfengjanlegt.

Stundum velti ég fyrir mér hvort við öll sem vorum börn þarna þegar kalda stríðið var í hámarki þyrftum ekki að fara í meðferð við áfallaröskun (Post Dramatic Stress Disorder) eftir að hafa alist upp með þá vissu að mannkynið ætti eftir að tortíma sjálfu sér í hryllilegu kjarnorkubáli. Við sem horfðum á heimildarþátt eftir heimildarþátt um hrylling kjarnorkunnar og hvað það væri hægt að tortíma jörðinni 100 sinnum með þeim byrgðum sem þegar væru til og þrátt fyrir það væri enþá verið að framleiða meira, meira, meira.


John F. Kennedy hefur alltaf verið hátt metin hjá mér fyrir það hvernig hann tók sér frí frá glaumgosalífinu og tók kúbudeiluna föstum tökum, stóð á móti vilja hersins og tókst að lenda málinu friðsamlega. Herinn vildi ráðast inn í Kúbu og þeir vissu ekki að vörður hverrar kjarnorkueldflaugarstöðvar á Kúbu hefði heimild til að skjóta eldflaugum sínum af stað ef ráðist væri á þá. Ein slík eldflaug hefði dugað til að setja af stað kjarnorkustríð. Ennþá merkilegra er til þess að hugsa að hugtakið “kjarnorkuvetur” var ennþá ekki komið til sögunnar á þeim tíma heldur bjuggust menn við því að hægt væri að verjast kjarnorkuárás með “Duck & Cover” tækninni sem byggðist á því að snúa baki í sprengjuna og beygja sig niður (brenna líklega á rassinum bara). Það var ekki fyrr en 1970-80 sem vísindamenn fóru að uppgvötva að slíkt stríð gæti sett af stað keðjuverkun sem myndi enda með manngerðiri ísöld og raunverulegum endalokum mannkinndar.

Einnig vil ég nota tækifærið og hugsa fallega til Stanislav Petrov sem var vakthafandi hershöfðingi í kjarnorkubyrgi Sepuhkov-15 nálægt Moskvu 26. September 1983 þegar loftvarnarkerfið fór að tilkynna stórtæka eldflaugaáras Bandaríkjamanna á leið til Sovétríkjanna. Á þessum tíma ríkti gríðarleg spenna í samskiptum ríkjanna. Stanislav bar skylda til að tilkynna atvikið samstundis en hann hafði á tilfinningunni að þetta væri villa í kerfinu og hann treysti ekki herforingjunum í Kreml fyrir því að að taka rétta ákvörðun undir þessari pressu. Hann ákvað því að treysta tilfinningu sinni og tilkynna ekki atvikið. Skömmu síðar fékk hann staðfest að tilfinning hans var rétt og vitanlega var hann rekinn úr hernum með skömm í kjölfarið. Takk fyrir þetta Stanislav.

Merkilegt að hugsa til þess að hafa verið lítill strákur að leika sér með hinum strákunum á bryggjunni að dorga marhnút og smíða fleka, alltaf með þessa hugsun bakvið eyrað “Ætli ég sjá rákir kjarnorkueldflauga á himninum í dag?”

Nú þegar haldið er upp á 20 ára afmæli fundarins í Höfða er alveg við hæfi að rifja upp þessa geðveiki og hvernig hún lá yfir hinum vestræna heimi. Rússneskur vinnufélagi minn sagði mér hinsvegar að þeim megin hefði ekki verið spáð svo mikið í þessu enda hefðu fæstir gert sér grein fyrir raunveruleika málsin þar sem svo mikið var falið frá fólkinu. Ég samgladdist honum að hafa ekkert vitað af þessu.

Nú hefur komið á daginn að í Höfða ræddu höfðingjar þessara tveggja risaættbálka í fyrsta sinn að þeir vildu helst losna alveg við þetta kjarnorkudót allt saman. Báðir voru þeir sammála um það. Vandinn var hinsvegar náttúrulega báknið sem var búið að byggja í kringum þetta. Iðnaðurinn og óttinn. Skrýmslið þarf að fæða. Annars verður það reitt. Skrýmslið í þessu tilfelli er þá herinn, herforingjarnir, verksmiðjurnar sem smíða sprengjurnar og allir aðrir sem hagsmuni hafa af því að þetta haldi áfram.

Það er skemmtileg pæling sem Andri Snær veltir upp í Draumalandinu, akkúrat hvernig við búum til stofnanir, skrýmsli sem þarf að fæða. Enginn vill missa vinnuna. Fólkið í jarðsprengjuverksmiðjunni hefur sín eigin börn að fæða og kýs þarafleiðandi að hugsa ekki um vöruna sem slíka né afleiðingar hennar. Nú er ég reyndar kominn aðeins út fyrir efnið.

Málið er að mér finnst oft eins og þetta ótrúlega rugl sé of gleymt í dag. Við verðum að muna eftir þessu og læra. Það er ennþá verið að framleiða kjarnorkuvopn og ný skrýmsli að fæðast um gjörvallan heim. Ekki bara á sviði vopnaframleiðslu heldur líka framleiðslu allskonar varnings sem er engum til góðs. Meðan við lærum ekki af sögunni erum við dæmd til að endurtaka hana (Karma). Spurning er bara hvort sama hepni verði með okkur þá?

Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.

n a s a w e b | WP Powered using Earthling by Headsetoptions + MandarinMusing in partnership with Romow and Linkwith.us